Bandalag íslenskra græðara eru regnhlífarsamtök fagfélaga heildrænna meðferðaraðila á Íslandi. Markmið með stofnun bandalagsins voru að samræma grunnmenntunarkröfur fagfélaganna, vinna að framgangi heildrænna meðferðaforma og vera opinber málsvari þeirra.
Aðildarfélögin eru fjögur talsins og gera þau menntunarlegar og faglegar kröfur til félagsmanna sinna. Eftirfarandi fagfélög eru aðilar að Bandalagi íslenskra græðara:
CranioSacral félag Íslands (CSFÍ)
Cranio, félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara
Þeir sem eru fullgildir félagar í framangreindum fagfélögum eru aðilar að BÍG. Sameiginlegt starfsheiti félagsmanna innan vébanda BÍG er græðari. Félagsmenn sem skrá sig í skráningarkerfi græðara bera auðkennið skráður græðari, auk fagheitis, samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2005.
Hvert er markmiðið með lögum um græðara?
Markmið laganna er að stuðla að gæðum heilsutengdrar þjónustu græðara og öryggi þeirra sem leita eftir slíkri þjónustu eða nýta sér hana. Markmiði þessu skal m.a. náð með því að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara.
Með orðinu græðari í lögum þeim sem samþykkt voru á Alþingi er átt við þá sem veita heilsutengda þjónustu utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu.
Með heilsutengdri þjónustu græðara er átt við þjónustu sem einkum tíðkast utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu og byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Slík þjónusta felur í sér meðferð með það að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun.
Erlent samstarf
BÍG er aðili að samnorrænum regnhlífarsamtökum, NSK, sem er Norræn samstarfsnefnd um heildrænar meðferðir, en samtökin mynda landssamtök fagfélaga á Norðurlöndum sem vinna að samræmingu menntunar og viðurkenningar á heildrænum meðferðum.