Félag íslenskra græðara var stofnað 30. nóvember árið 2000. Hvatamaður að stofnun félagsins og fyrsti formaður þess var Á. Svava Magnúsdóttir.
Á stofnfundi gengu sex félög í FÍSG. Seinna var nafni félagsins breytt í Bandalag íslenskra græðara.
Bandalag íslenskra græðara eru regnhlífarsamtök fagfélaga heildrænna meðferðaraðila á Íslandi. Markmið með stofnun bandalagsins voru að samræma grunnmenntunarkröfur fagfélaganna, vinna að framgangi heildrænna meðferðaforma og vera opinber málsvari þeirra.
Aðildarfélögin eru fagfélög sem gera menntunarlegar og faglegar kröfur til félagsmanna sinna.
Samstarf skráðra græðara við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.
Í skýrslu heilbrigðisráðherra um græðara og starfsemi þeirra frá 2005 er lagt til að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands verði falið formlegt hlutverk við að kynna aðferðir græðara fyrir starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að samþættingu þessara sviða í samráði við Bandalag íslenskra græðara.
Samstarf skráðra græðara við HNLFÍ hófst formlega í september 2012 og er samstarfið mikilvægur liður í því að treysta samband skráðra græðara við aðrar fagstéttir sem sinna heilsutengdri þjónustu. Stefnt er að því að bjóða fræðslu og meðferðir skráðra græðara samhliða þeirri þjónustu sem veitt er hjá Heilsustofnuninni.
Þetta samstarf er enn í mótun og er áhugi fyrir því að þróa samstarfið enn frekar til framtíðar.
Ávarp frá formanni BÍG í tengslum við Dag græðara.
Kæru græðarar
Bandalag íslenskra græðara eru regnhlífasamtök fagfélaga heildrænna meðferðaraðilla á Íslandi. Ákveðið var að stofna til sérstaks dags græðara hér á landi til kynningar á starfi græðara og er þetta í þriðja skiptið sem Bandalag íslenskra græðara heldur slíkan dag. Að þessu sinni tengist það 10 ára afmæli bandalagsins sem er þann 30. nóvember næstkomandi.
Bandalagið tekur forskot á afmælinu með því að bjóða uppá veglega dagskrá á Grand Hótel, Reykjavík dagana 3. 4. og 5. september næstkomandi. Haldnir verða fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar bæði frá græðurum og gestafyrirlesurum þann 4. og 5. september. Helgin verður opin öllum bæði fagfólki og almenningi til fróðleiks og skemmtunar. Föstudaginn 3. september verður boðið uppá ör-námskeið, með áhugaverðum stuttnámskeiðum.
Í vikunni fyrir og eftir „Dags græðara“ dagana munu græðarar standa fyrir ýmsum uppákomum víðs vegar um landið, og verður það auglýst nánar á heimasíðu bandalagsins. Á svæðinu fyrir framan fyrirlestrasalinn verða að finna bæklingaborð frá aðildarfélögunum sem standa að BIG, en þau eru alls níu, með fróðleik og kynningu á þeirra starfsemi. Einnig verða þar sölu– og kynningarborð með vöru sem tengist heilsu og heilbrigði og verður það svæði opið öllum.
Í tilefni þessara tímamóta var ákveðið að gefa út afmælisrit sem verður fullt af frábærum greinum frá aðildarfélögunum, auk annarra greina um efni sem tengist okkar fögum á einn eða annan hátt. Vonum við að þetta afmælisrit veki verðskuldaða athygli og verði góð kynning fyrir aðildarfélögin, sem standa að Bandalag íslenskra græðara, bandalagið sjálft og Nordisk Samarbejds Komité for ikke-konvensjonel medisin/terapi sem er Norræn regnhlífasamtök sem við tengjumst.
Vil ég að lokum nota tækifærið og þakka öllum þeim, sem komið hafa beint eða óbeint að þessu með okkur með sinni miklu óeigingjörnu vinnu í þágu bandalagsins, og gert okkur mögulegt að halda þessa veglegu afmælishátíð. Kærar þakkir og innilegar hamingjuóskir með tíu árin kæru græðarar.
01.08.2010
Anne May Meidell Sæmundsdóttir
Formaður Bandalag íslenskra græðara.
18.04.2010 Rannsókn um notkun heildrænna meðferða
Í 4. tbl. Læknablaðsins er birt grein eftir félagsfræðingana Björgu Helgadóttur og Rúnar Vilhjálmsson þar sem þau kynntu sér í hvaða mæli Íslendingar notfæra sér heildrænar meðferðir og hverjar skýringar þess eru. Rannsóknin byggir á könnun sem gerð var árið 2006. Í ljós kom að aukning meðal þeirra sem svöruðu var 6% frá árinu 1998 og að konur og tekjuhærra fólk nýtti sér þjónustuna frekar en aðrir. Einnig að líkamleg og sálræn vanlíðan tengist notkun og að þeir sem hafa neikvæða eða jákvæða afstöðu til þjónustu lækna sækja frekar í heildræna meðferð en þeir sem hafa hlutlausa afstöðu. Þeir sem fara oft til læknis nota frekar þjónustu græðara heldur en þeir sem fara sjaldan eða ekki til læknis. Höfundarnir álykta sem svo að við veitum umtalsverða þjónustu og það í vaxandi mæli og að ákveðinn hluti þjóðarinnar virðist ekki ánægður með þá þjónustu sem hann fær í heilbrigðiskerfinu. Ekkert af þessu ætti að koma okkur, sem störfum við heildræna meðferð, á óvart, en gott er að fá staðfestingu á því, svart á hvítu. Réttilega hefur verið bent á það í fjölmiðlum að fróðlegt væri að gera samanburð á þessum tölum frá 2006 og ástandinu eins og það er í dag, þegar fjárhagur bæði almennings og stofnana í hinu opinbera heilbrigðiskerfi er allt annar en var fyrir efnahagskreppuna. Einnig væri fróðlegt að afla upplýsinga um hvaða áhrif skráning græðara hefur haft á val neytenda, en tölurnar í þessari könnun eru frá því áður en frjálsu skráningarkerfi græðara var komið á fót. Græðarar eru eindregið hvattir til að kynna sér rannsóknina í heild sinni á vef Læknablaðsins.
09.11.2009 Fundur Norðurlandaráðs græðara
Fyrir skömmu fundaði NSK, Norðurlandaráð græðara hérlendis. Við það tækifæri var komið á fundi með þeim sem sátu fundinn, fulltrúum frá stjórn BÍG og fulltrúa frá Heilbrigðisráðuneytinu, Gunnari Alexander Ólafssyni. Gunnar lét vel af þeirri reynslu sem verið hefur af frjálsu skráningarkerfi græðara hérlendis, sagði frá því að tekið hefði verið eftir því í ráðuneytinu hve mikil eining ríkir meðal íslenskra græðara og óskaði bandalaginu til hamingju með nýútkomið fylgiblað með Fréttablaðinu í tilefni dags græðara. Meðal annars sem bar á góma var staða græðara á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu og virðisaukaskattsmál. Fundurinn var mjög ánægjulegur og skapaðist þarna gott tækifæri til að miðla í báðar áttir upplýsingum sem snerta málefni græðara.

04.11.2009 Viðurkenning Heilsumeistaraskólans
Menntamálaráðuneyti Íslands hefur frá október 2009 samþykkt umsókn Nýja Heilsumeistaraskólans um viðurkenningu á skólanum sem einkaskóla á framhaldsskólastigi, samkvæmt lögum þar að lútandi. Viðurkenningin er veitt til að starfrækja nám í heildrænum meðferðum, heilsumeistaranám, í samræmi við lög um græðara. Í námskrá Heilsumeistaraskólans er námið skilgreint sem 86 eininga nám sem kennt er í 25 áföngum á 3 árum. Nánari upplýsingar um námskrá skólans og fleira er lýtur að kennslu skólans má sjá á heimasíðu hans: www.heilsumeistaraskolinn.com.
Í Heilsumeistaraskólanum eru nú 42 nemendur samtals og í júní 2010 mun skólinn útskrifa fyrstu heilsumeistarana.
2009 Organon 10 ára

Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því Organon, fagfélag hómópata, var stofnað. Af því tilefni fékk félagið heimsfrægan hómópata, Miröndu Castro, til að koma til Íslands og halda námskeið. Námskeiðið sóttu nærri 70 manns og að því loknu var haldin afmælisveisla. Bandalag íslenskra græðara óskar félagsmönnum til hamingju með afmælið.
28.02.2009 Norðmenn fella niður virðisaukaskatt
Þær gleðilegu fregnir hafa borist frá NNH, systurbandalagi BÍG í Noregi, að virðisaukaskattur hafi verið felldur niður af starfsemi skráðra græðara þar í landi frá og með síðustu áramótum. Það er að sjálfsögðu hagur bæði neytenda og veitenda græðaraþjónustunnar að starfsemin sé undanþegin virðisaukaskatti, en einnig ríkisins, þar sem líklegt er að í kjölfarið dragi úr „svartri“ atvinnustarfsemi í greininni. Það hefur verið yfirlýst markmið NSK, Norðurlandaráðs græðara, allt frá stofnun að virðisaukaskattur verði felldur niður af heildrænum meðferðum alls staðar á Norðurlöndunum.
Við hjá Bandalagi íslenskra græðara óskum Norðmönnum til hamingju með þessa ákvörðun og vonum að sjálfsögðu að íslenska ríkið taki sér Norðmenn til fyrirmyndar áður en langt um líður. Það er nú enn mikilvægara fyrir almenning en áður að hafa greiðan aðgang að starfsemi græðara, þar sem fyrirsjáanlegur er aukinn niðurskurður og samdráttur í þjónustu hins opinbera heilbrigðiskerfis í kjölfar efnahagskreppunnar.
7.5.2007 Fyrsti græðarinn fær skráningu
Fyrsti græðarinn hefur fengið skráningu samkvæmt skráningarkerfi Bandalags íslenskra græðara sem viðurkennt er af heilbrigðisyfirvöldum. Handhafi fyrsta skráningaskírteinisins er Anna Birna Ragnarsdóttir, hómópati og formaður Bandalags íslenskra græðara og Organon, fagfélags hómópata. Í tilefni af skráningu fyrsta græðarans heimsótti hópur græðara Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, í ráðuneytið.
Lög um græðara voru sett af Alþingi árið 2005 en markmið þeirra er að stuðla að gæðum í þjónustu græðara og tryggja öryggi þeirra sem nýta sér hana. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafði áður hvatt aðildarþjóðir sínar til að setja reglur um þessa starfsemi. Í lögunum eru störf græðara skilgreind sem heilsutengd þjónusta sem byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum og sem veitt eru utan almennu heilbrigðisþjónustunnar. Þjónusta græðara felur í sér meðferð sem hefur að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar og draga úr óþægindum.
Til að fá skráningu þarf græðari að vera í fagfélagi sem er viðurkennt sem aðili að frjálsu skráningarkerfi Bandalags íslenskra græðara. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákveður að fenginni umsögn Landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort einstök félög uppfylla kröfur sem eru forsenda þess að fá aðild að skráningarkerfinu. Til þessa hafa fimm fagfélög græðara fengið aðild að skráningarkerfinu og umsóknir tveggja félaga til viðbótar eru til skoðunar. Innan þessara félaga eru starfandi liðlega 500 græðarar og má búast við að á næstunni muni fjöldi þeirra óska eftir formlegri skráningu. Græðarar sem sækja um skráningu þurfa meðal annars að hafa ábyrgðartryggingu sem tryggir skjólstæðinga þeirra vegna tjóns sem kann að hljótast af gáleysi í störfum þeirra.
Fyrsta félagið sem fékk samþykkta aðild að skráningarkerfinu var Organon, félag hómópata, en síðan hafa fjögur önnur fagfélög bæst við en það eru: CranioSacral félag Íslands, Shiatsufélag Íslands, Svæðameðferðafélag Íslands og Félag íslenskra heilsunuddara.
Græðararnir sem heimsóttu ráðherra í tilefni skráningu fyrsta græðarans:
Frá vinstri, Árni V. Pálmason, CranioSacral félagi Íslands, Anna Birna Ragnarsdóttir, Organon, fagfélagi hómópata, Ásta Agnarsdóttir, Sambandi svæða-og viðbragðsfræðinga á Íslandi, Siv Friðleifsdóttir, Guðrún Jónína, Félagi íslenskra heilsunuddara, og Ragnheiður Júlíusdóttir, Svæðameðferðafélagi Íslands.