Lög bandalags íslenskra græðara

bigmerki1. gr. Nafn og varnarþing
Heiti bandalagsins er Bandalag íslenskra græðara (BÍG). Með orðinu græðari í lögum þessum, er átt við þá sem leggja stund á heilsutengda þjónustu utan hinnar almennu heilbrigðisþjónustu. Slík þjónusta felur í sér meðferð með það að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar, draga úr óþægindum og stuðla að heilun. Bandalagið er samband fagfélaga græðara.

Enskt heiti þess er The Association of Complimentary and Alternative Medicine in Iceland (ACAMI). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Bandalagið tekur ekki afstöðu til trúarskoðana og stjórnmála með neinum hætti.
                                                                                                                            
2.gr. Tilgangur bandalagsins er:
  1. að vera hvetjandi og ráðgefandi regnhlífarsamtök fagfélaga græðara á Íslandi.
  2. að styðja aðildarfélög í innra starfi þeirra og út á við eftir því sem við á.
  3. að aðstoða við úrlausn ágreiningsefna, sem upp kunna að koma innan aðildarfélaga, sé þess óskað.
  4. að koma fram sem málsvari græðara gagnvart stjórnvöldum, neytendum og á opinberum vettvangi þegar þess gerist þörf.
  5. að tryggja sérstöðu og sterka ímynd íslenskra græðara í samfélaginu.
  6. að tryggja viðurkenningu og réttindi íslenskra græðara sem fagfólks.
  7. að vinna að málefnum íslenskra græðara sem fagfólks.
  8. að stuðla að því að íslenskir græðarar hafi góða menntun, ástundi fagleg vinnubrögð og starfi eftir siðareglum og lögum um græðara.
  9. að tryggja að aðgangur neytenda að þjónustu græðara sé óheftur.
  10. að efla samstarf græðara á milli.
  11. að vera vettvangur fyrir upplýsingaflæði og skoðanaskipti meðal íslenskra græðara.
  12. að stuðla að innlendum rannsóknum á heildrænum meðferðartegundum.
  13. að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd íslenskra græðara.
  14. að reka skráningarkerfi fyrir græðara, skv. lögum Alþingis um græðara nr. 34/2005.

3. gr. Aðildarreglur
Umsókn félags um aðild að bandalaginu skal vera skrifleg og send stjórn BÍG til samþykktar fyrir 1. febrúar ár hvert. Uppfylli félagið skilyrði laga um græðara, skal umsóknin lögð fyrir ársþing Bandalags íslenskra græðara til samþykktar. Hvert aðildarfélag innan vébanda bandalagsins starfar sjálfstætt. Aðildarfélög skulu halda aðalfund einu sinni á ári. Hjá bandalaginu skulu liggja fyrir lög og siðareglur hvers aðildarfélags, sem skulu vera í samræmi við Lög um græðara nr. 34/2005, samþykkt á Alþingi 2. maí 2005, og reglugerð nr. 877 um frjálst skráningarkerfi græðara.

Hjá bandalaginu skulu einnig liggja fyrir menntunarkröfur þess, sem skulu að lágmarki vera 660 kennslustundir,
þar af 10 einingar í líffæra- og lífeðlisfræði LÍOL2SS05 og LÍOL2IL05 (eða 6 einingar samkvæmt gamla einingakerfi),
10 einingar í sjúkdómafræði SJÚK2MS05 og SJÚK2GH05 (eða 5 einingar samkvæmt gamla einingakerfi),
og 5 einingar í siðfræði SIÐF2SF05 (eða 2 einingar samkvæmt gamla einingakerfi).
Hér er átt við einingar á framhaldsskólastigi.

Heimilt er að veita undanþágu frá ofangreindum skilyrðum um menntun ef öll nýliðun í viðkomandi fagfélagi lýtur þessum kröfum. Aðildarfélög skulu opin öllum sem tilheyra viðkomandi fagi, og uppfylla námskröfur þess.
Úrsögn úr bandalaginu skal vera skrifleg og send stjórn, enda hafi aðalfundur aðildarfélagsins tekið þá ákvörðun. Gegni aðildarfélag BÍG ekki þeim skyldum er því ber samkvæmt lögum og samþykktum eða vinni gegn hagsmunum bandalagsins getur bandalagsþing vikið viðkomandi aðildarfélagi skriflega úr bandalaginu hafi skriflegri áminningu ekki verið sinnt. Tillaga að brottvikningu getur verið lögð fram af einstöku aðildarfélagi og/eða stjórn bandalagsins, slík tillaga skal lögð fyrir á bandalagsþingi, sbr. 7. gr. og þarf samþykki 2/3 hluta þingmanna til að öðlast gildi.

4. gr. Skipun og hlutverk stjórnar, starfsreglur o.fl.
Skipun og hlutverk.
Stjórn bandalagsins skal skipuð einum fulltrúa og einum varafulltrúa frá hverju aðildarfélagi. Hvert aðildarfélag skipar sinn fulltrúa í stjórn, til tveggja ára í senn, æskilegt er að stjórnarmenn komi úr stjórn viðkomandi aðildarfélags. Skipun fulltrúa í stjórnina skal hagað þannig að aldrei fleiri en 2/3 stjórnarmeðlima ganga úr stjórninni samtímis.

Ef vantrauststillaga hefur verið borin upp fyrir bandalagsþing og hlotið þar samþykki 2/3 hluta þingmanna, er stjórn skylt að segja af sér. Skal þá skipa nýja stjórn innan mánaðar, en fráfarandi stjórn er skylt að rækja störf sín þar til sú skipan hefur átt sér stað.
Formaður stjórnarinnar sem jafnframt er formaður bandalagsins skal kjörinn af bandalagsþingi, sbr. 7. gr., úr hópi skipaðra stjórnarmanna. Formaður skal kjörinn til tveggja ára í senn og má lengst sitja þrjú kjörtímabil samfellt.
Stjórnin skiptir með sér störfum. Utan sérkjörins formanns, skal valinn einn varaformaður, einn gjaldkeri og einn ritari. Varaformaður stjórnar skal vera staðgengill formanns í forföllum hans. Stjórnin ræður málefnum bandalagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja og ber ábyrgð gerða sinna fyrir bandalagsþingi. Formaður BÍG er talsmaður stjórnar og annast daglegan rekstur bandalagsins, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórn kann að fela honum og lög heimila. Stjórnin skipar í nefndir sem starfa á vegum bandalagsins og tilnefnir fulltrúa aðildarfélaganna til starfa í þær nefndir og ráð sem það á aðild að. Sjá nánar verklagsreglur stjórnar Bandalags íslenskra græðara.
Stjórn leggur endurskoðaða reikninga síðasta árs fyrir ársþing, hefur umsjón með eigum bandalagsins og gætir hagsmuna þess í hvívetna. Ársþing skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga bandalagsins og einn til vara, til tveggja ára í senn.
Prókúruhafar eru gjaldkeri bandalagsins og formaður. Meirihluti stjórnarmanna ritar firma bandalagsins.Reglur og samþykktir
Stjórnarmenn skulu kynna í aðildarfélögum sínum lög þessi og ákvarðanir stjórnar sem teknar eru á grundvelli þeirra sem og starfsemi bandalagsins almennt. Stjórnin skal vinna innan þess ramma sem lög þessi setja ásamt lögum um græðaranr. 34/2005, samþykktum á Alþingi 2. maí 2005, og reglugerð nr. 877 um frjálst skráningarkerfi græðara. Ákvarðanir sem falla utan valdsviðs hennar samkvæmt þessu eru ógildar.Siðanefnd
Siðanefnd BÍG er sjálfstæð nefnd og starfar óháð stjórn BÍG, skipuð þremur fulltrúum og þremur til vara og koma þeir úr siðanefndum aðildarfélaganna, hverjum úr sínu félaginu. Nefndarfulltrúar kjósa formann úr eigin hópi og er hann oddamaður nefndarinnar og tengiliður við stjórn BÍG. Varamaður hefur ekki atkvæðisrétt nema í fjarveru aðalmanns. Boðað skal til funda skriflega og með tölvupósti og skulu fundargerðir skráðar. Nefndin tekur fyrir mál sem einstakir félagsmenn aðildarfélaga skjóta til áfrýjunar, séu þeir ósáttir við úrskurð eigin fagfélags, einnig getur nefndin tekið upp mál að frumkvæði stjórnar BÍG. Í því tilviki sem við á víkur fulltrúi viðkomandi fagfélags af fundi og varamaður tekur við meðan nefndin fjallar um málið. Nefndin getur leitað eftir áliti utanaðkomandi sérfræðings. Úrskurði nefndarinnar skal meðhöndla sem trúnaðarmál, þeir skulu vera skriflegir og birtir málsaðilum, stjórn BÍG og stjórn og siðanefnd viðkomandi aðildarfélags.
.
5.gr. Reikningar
Reikningsár bandalagsins er almanaksárið. Stjórnin skal leggja fram árlegt reikningsuppgjör. Skoðunarmenn bandalagsins fara yfir reikninga og staðfesta þá. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram á bandalagsþingi ár hvert.
 .
6. gr. Árgjald

Árgjald bandalagsins skal ákveðið af bandalagsþinginu til eins árs í senn. Árgjald til bandalagsins skal greitt fyrir 1. nóvember ár hvert. Hvert aðildarfélag skal standa skil á árgjaldi samkvæmt fjölda fullgildra félagsmanna.

7. gr. Ársþing Bandalags íslenskra græðara
Ársþing Bandalags íslenskra græðara og ályktanir.                                                 Ársþing Bandalags íslenskra græðara fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Á ársþingi sem og aukaþingi hafa einungis þingmenn aðildarfélaganna kjörgengi og atkvæðisrétt: Þingmaður skal vera fullgildur félagi og skal formaður aðildarfélags vera einn af þingmönnum ásamt fulltrúa félagsins í BÍG. Aðrir þingmenn skulu kosnir á aðalfundi hvers aðildarfélags og fer fjöldi þeirra eftir fjölda fullgildra félagsmanna. Aðildarfélag með 3-50 fullgilda félagsmenn skal hafa 3 þingmenn og 3 varaþingmenn, og fyrir hverja 50 fullgilda félagsmenn þar yfir bætist við 1 þingmaður og 1 til vara. Áður en bandalagsþing hefst skulu þingmenn leggja fram kjörbréf frá félagi sínu til staðfestingar. Hver þingmaður hefur eitt atkvæði.

Stjórn bandalagsins ber ábyrgð á störfum, hagsmunum og eigum þess gagnvart aðildarfélögunum og bandalagsþingi. Ársþing skal haldið á tímabilinu 1 maí til 30 maí ár hvert og skal til þess boðað skriflega með þriggja vikna fyrirvara hið skemmsta. Fundartíma skal tilgreina í fundarboði svo og fundarefni. Í fundarboði skal einnig getið þeirra sem eru í framboði til formanns bandalagsins. Bandalagsþing telst löglegt hafi löglega verið til þess boðað. Stjórnin boðar til bandalagsþings, undirbýr það og sendir þingskjöl til aðildarfélaga minnst 14 dögum fyrir þingið.

Kjörnefnd skal kosin á ársþingi BÍG og skal hún skipuð af tveimur aðilum.
Starfstímabil hennar er eitt ár. Kjörnefnd þessi hefur það hlutverk að finna aðila sem gefa kost á sér í laus embætti í stjórn bandalagsins ásamt því að finna aðila í þær nefndir sem stjórnin ákveður að skipa hverju sinni.
Í upphafi bandalagsþings skal kjósa sérstakan þingforseta, 1 þingritara  og einn til vara eftir tilnefningu. Forseti og þingritarar skulu gera fundargerð bandalagsþings.

Dagskrá ársþings skal vera:
1. Þingsetning.
2. Kosning þingforseta og þingritara.
3. Fundargerð síðasta bandalagsþings borin upp til samþykktar.
4. Skýrsla formanns.
5. Afgreiðsla tillagna til lagabreytinga.
6. Skýrslur aðildarfélaga um starfsemi undangengins árs.
7. Skýrslur nefnda, umræða og fyrirspurnir.
8. Skýrsla NSK – fulltrúa.
9. Reikningar bandalagsins lagðir fram til samþykktar.
10. Atkvæðagreiðsla um árgjald.
11. Kosning formanns.
12. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
13. Kosning kjörnefndar.
14. Önnur mál.
15. Þingslit.
 .
8. gr. Breytingar á lögum
Lögum bandalagsins verður aðeins breytt á ársþingi og skal tillögum til lagabreytinga eða um breytingar á starfstilhögun skilað til stjórnar eigi síðar en þremur vikum fyrir ársþing. Skal stjórnin senda aðildarfélögum tillögurnar minnst 14 dögum fyrir ársþing til kynningar. Nái tillaga til lagabreytingar samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða tekur hún gildi.
                                                                                                                                 
9. gr. Aðrir bandalagsfundir og aukaþing
Stjórnin getur boðað til almenns bandalagsfundar og aukaþings telji hún þörf á því. Þeir skulu boðaðir með minnst 14 daga fyrirvara. Stjórninni er skylt að halda aukaþing ef minnst þriðjungur aðildarfélaganna óskar þess skriflega, enda varði fyrirhugað fundarefni málefni er varðar starfssvið og hagsmuni bandalagsins. Slíkt þing skal halda innan þriggja vikna frá því að hin skriflega ósk barst stjórninni.
Aukaþing skal boða með skriflegri tilkynningu þar sem fram kemur fundarefni. Tilkynninguna skal senda til stjórna aðildarfélaga með pósti eða öðrum sambærilegum hætti.
                                                                                                             
10. gr. Formannafundir
Formenn aðildarfélaga skulu funda með stjórn bandalagsins að lágmarki einu sinni á ári.
                                                                                                                                 
11. gr. Slit bandalagsins
Komi fram tillaga frá minnst þremur félögum, sem standa að Bandalagi íslenskra græðara, um að bandalaginu skuli slitið, skal hún tekin fyrir á lögmætu bandalagsþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst ¾ hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum aðildarfélögum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta þings.Verði tillagan samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun að leggja bandalagið niður. Verði Bandalag íslenskra græðara lagt niður renna eignir bandalagsins til aðildarfélaganna í hlutfalli við fjárhagslegt framlag þeirra.

Einstök aðildarfélög geta einhliða sagt sig úr bandalaginu en við þær aðstæður fer ekki fram uppgjör á eignum félagsins. Fulltrúar og félagsmenn aðildarfélags sem hefur sagt sig úr bandalaginu með þessum hætti missa umsvifalaust öll réttindi sem bundin eru við bandalagsaðild. Enda hefur slík úrsögn verið tilkynnt með formlegum hætti til stjórnar bandalagsins.

12. gr. Breytingar á lögbundnu hlutverki
Lög þessi skal endurskoða til samræmis við lögbundið hlutverk bandalagsins á hverjum tíma.

Lög þessi voru samþykkt á ársþingi Bandalags íslenskra græðara 24. apríl 2010


Stefnuskrá Bandalags íslenskra græðara

Bandalag íslenskra græðara hefur eftirtalin markmið:

  1. Að auka skilning og velvirðingu heilbrigðisyfirvalda, heilbrigðisstétta og almennings á starfsemi græðara.
  2. Að virðisaukaskattur verði felldur niður af starfsemi græðara.
  3. Að þjónusta græðara verði niðurgreidd af hinu opinbera.
  4. Að aðrar úrbætur verði gerðar á starfsumhverfi græðara.
  5. Að auka innlendar rannsóknir á heildrænum meðferðartegundum.

Að stofnað verði til útgáfu fréttabréfs sem þjóni aðildarfélögunum til upplýsingagjafar og skoðanaskipta.

Samþykkt á ársþingi Bandalags íslenskra græðara 26. maí 2008.


Verklagsreglur stjórnar Bandalags íslenskra græðara, með vísun í 4. gr. laga BÍG.

  1. Formaður BÍG er talsmaður og fulltrúi stjórnar Bandalags íslenskra græðara út á við og starfar í umboði stjórnar. Hann hefur yfirumsjón með daglegum rekstri bandalagsins.
  2. Varaformaður BÍG er staðgengill formanns.
  3. Ritari BÍG sér um ritun fundargerða. Fundargerðir skulu sendar með tölvupósti til athugasemda að loknum stjórnarfundi og bornar upp til samþykktar á næsta fundi.
  4. Ritari ber ábyrgð á uppfærslu heimasíðu bandalagsins.
  5. Gjaldkeri BÍG ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi bandalagsins gagnvart ársþingi. Gjaldkeri skal veita stjórn yfirlit yfir fjárhagsstöðu bandalagsins minnst einu sinni á ári, og oftar sé þess óskað.
  6. Stjórn bandalagsins endurskoðar fjárhagsáætlun BÍG árlega á grundvelli yfirlits sem gjaldkeri veitir yfir fjárhagsstöðu bandalagsins.
  7. Stjórnarmenn bandalagsins bera ábyrgð á að fræða sitt aðildarfélag um málefni bandalagsins og skulu sjá til þess að fundargerðir berist stjórn síns aðildarfélags. Hvert aðildarfélag skipar einn stjórnarmann og skal hann endurspegla vilja síns aðildarfélags innan stjórnar bandalagsins, þar sem hann situr í stjórn bandalagsins sem fulltrúi aðildarfélags síns.
  8. Stjórn bandalagsins skipar fulltrúa og varafulltrúa bandalagsins til setu í NSK, og boðar þá á stjórnarfundi til að fjalla um framgang málefna græðara á Íslandi, sem og Norðurlöndum, svo oft sem þurfa þykir. NSK-fulltrúi kynnir framgang málefna NSK á ársþingi bandalagsins.
  9. Formenn aðildarfélaga skulu reglulega gera grein fyrir starfsemi félaganna. Þeir bera ennfremur ábyrgð á að senda ársskýrslu sína (skýrslu formanns og/eða fundargerð aðalfundar) til ritara Bandalags íslenskra græðara. Formenn aðildarfélaga bera ábyrgð á allri starfsemi síns félags. Rekstur þeirra er BÍG óviðkomandi en verður þó að samræmast lögum og siðareglum bandalagsins, sem og lögum um græðara nr. 34/2005.
  10. Stjórn bandalagsins boðar árlega formenn aðildarfélaga til fundar þar sem fjallað er um framgang og starfsemi BÍG.
  11. Eignir og gögn bandalagsins skulu varðveittar á skrifstofu þess að undanskildum farsíma BÍG sem formaður ber.
  12. Verklagsreglum þessum verður einungis breytt með samþykki 2/3 hluta stjórnar.Samþykkt á ársþingi Bandalags íslenskra græðara 26. maí 2008.

Verklagsreglur varðandi frjálst skráningarkerfi græðara

Skráningarkerfið er í umsjón Bandalags íslenskra græðara.

  1. Stjórn Bandalags íslenskra græðara hefur yfirumsjón með frjálsu skráningarkerfi græðara. Stjórn BÍG getur ennfremur, sé þess óskað, skipað starfsmann/-menn til aðstoðar við að halda utan um skráningu í frjálst skráningarkerfi græðara.
  2. Þegar stjórn aðildarfélags sendir gögn varðandi nýskráningu inn í skráningarkerfið skulu þeir sem hafa yfirumsjón fara yfir umsókn og fylgiskjöl til að ganga úr skugga um að ekkert vanti.
  3. Stjórn sér um skráningu græðara inn í frjálst skráningarkerfi græðara og tryggir að réttar upplýsingar um skráða græðara séu birtar á heimasíðu BÍG.
  4. Stjórn er tengiliður milli BÍG og tryggingafélaga. Hún hefur umsjón með að réttar upplýsingar berist til tryggingafélaga.
  5. Stjórn BÍG ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi skráningarkerfisins og ber ábyrgð á að halda fjárhag skráningarkerfisins aðskildum frá öðrum fjármunum bandalagsins. Hún sér um að senda út greiðsluseðla vegna nýskráningar og vegna þjónustugjalds.
  6. Komi upp ágreiningsmál varðandi skráningu skal það mál tekið upp á stjórnarfundi BÍG og úrlausn fundin.
  7. Fartölva skráningarkerfisins er í umsjón og vörslu ritara BÍG.

Samþykkt á ársþingi Bandalags íslenskra græðara 26. maí 2008.