Samstarf skráðra græðara við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.


Í skýrslu heilbrigðisráðherra um græðara og starfsemi þeirra frá 2005 er lagt til að Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands verði falið formlegt hlutverk við að kynna aðferðir græðara fyrir starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að samþættingu þessara sviða í samráði við Bandalag íslenskra græðara.

Samstarf skráðra græðara við HNLFÍ hófst formlega í september 2012 og er samstarfið mikilvægur liður í því að treysta samband skráðra græðara við aðrar fagstéttir sem sinna heilsutengdri þjónustu. Stefnt er að því að bjóða fræðslu og meðferðir skráðra græðara samhliða þeirri þjónustu sem veitt er hjá Heilsustofnuninni.
Þetta samstarf er enn í mótun og er áhugi fyrir því að þróa samstarfið enn betur til framtíðar.


Dagur græðara haustið 2012.


Unnið er að undirbúningi fyrir dag græðara sem haldinn verður þann 20. október næstkomandi í veislusal Rúgbrauðsgerðarinnar í Borgartúni 6.

Flutt verða erindi um heildrænar meðferðir og efni þeim tengt. Dagskráin verður kynnt nánar síðar.

Þeir sem hafa áhuga á því að vera með kynningarborð/pláss fyrir prufumeðferðir vinsamlegast hafið samband við Hafdísi Ósk með tölvupósti á netfangið hafdisosk@hotmail .com.
Athugið að takmarkaður fjöldi borða er í boði.


NSK fundur


19. mars 2012
NSK fundur verður haldinn í Kaupmannahöfn í maí 2012. Fulltrúi frá BÍG mun ekki fara að þessu sinni.

Rauðakross námskeið.


Rauðakrossnámskeið var haldið fyrir félagsmenn aðildarfélaganna um miðjan febrúar og var námskeiðið einkar vel sótt og vakti mikla lukku meðal þátttakenda.

Skrifstofa Bandalagsins flutt í nýtt og stærra húsnæði.


26.nóvember 2010
Bandalag íslenskra græðara hefur nú breytt aðsetri sínu og er flutt að Köllunarklettsvegi 1. 3 hæð, 104 Reykjavík. Aðstaðan þar er til fyrirmyndar og gefst stjórnum aðildarfélaganna færi á að nýta sér fundaraðstöðuna. Athygli skal vakin á því við einstaklinga sem stunda óhefðbundnar lækningar að á sama stað er til leigu rými sem hentað getur vel til meðferða. Nú þegar hafa einhverjir aðilar leigt sér aðstöðu að Köllunarklettsvegi og hvetur formaður Bandalags íslenskra græðara fleiri til að gera slíkt hið sama.


Ávarp frá formanni BÍG í tengslum við Dag græðara.


01.08.2010
Kæru græðarar
Bandalag íslenskra græðara eru regnhlífasamtök fagfélaga heildrænna meðferðaraðilla á Íslandi. Ákveðið var að stofna til sérstaks dags græðara hér á landi til kynningar á starfi græðara og er þetta í þriðja skiptið sem Bandalag íslenskra græðara heldur slíkan dag. Að þessu sinni tengist það 10 ára afmæli bandalagsins sem er þann 30. nóvember næstkomandi.

Bandalagið tekur forskot á afmælinu með því að bjóða uppá veglega dagskrá á Grand Hótel, Reykjavík dagana 3. 4. og 5. september næstkomandi. Haldnir verða fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar bæði frá græðurum og gestafyrirlesurum þann 4. og 5. september. Helgin verður opin öllum bæði fagfólki og almenningi til fróðleiks og skemmtunar. Föstudaginn 3. september verður boðið uppá ör-námskeið, með áhugaverðum stuttnámskeiðum.

Í vikunni fyrir og eftir „Dags græðara“ dagana munu græðarar standa fyrir ýmsum uppákomum víðs vegar um landið, og verður það auglýst nánar á heimasíðu bandalagsins (
www.big.is). Á svæðinu fyrir framan fyrirlestrasalinn verða að finna bæklingaborð frá aðildarfélögunum sem standa að BIG, en þau eru alls níu, með fróðleik og kynningu á þeirra starfsemi. Einnig verða þar sölu– og kynningarborð með vöru sem tengist heilsu og heilbrigði og verður það svæði opið öllum.
Í tilefni þessara tímamóta var ákveðið að gefa út afmælisrit sem verður fullt af frábærum greinum frá aðildarfélögunum, auk annarra greina um efni sem tengist okkar fögum á einn eða annan hátt. Vonum við að þetta afmælisrit veki verðskuldaða athygli og verði góð kynning fyrir aðildarfélögin, sem standa að Bandalag íslenskra græðara, bandalagið sjálft og Nordisk Samarbejds Komité for ikke-konvensjonel medisin/terapi sem er Norræn regnhlífasamtök sem við tengjumst.
Vil ég að lokum nota tækifærið og þakka öllum þeim, sem komið hafa beint eða óbeint að þessu með okkur með sinni miklu óeigingjörnu vinnu í þágu bandalagsins, og gert okkur mögulegt að halda þessa veglegu afmælishátíð. Kærar þakkir og innilegar hamingjuóskir með tíu árin kæru græðarar.

Anne May Meidell Sæmundsdóttir
Formaður Bandalag íslenskra græðara.

Dagur græðara


29.07.2010
Nú fer að styttast í Dag græðara en hægt er að nálgast dagskrá fyrirlesta
hér. Allar nánari upplýsingar um daginn er hægt á skoða undir liðnum Dagur græðara.


Árshátið Bandalags íslenskra græðara.


27.07.2010
Árshátíð félagsmanna aðildarfélaga BÍG verður haldin þann 4. September næstkomandi á Grand Hotel Reykjavík. Þeir sem hafa áhuga á því að gleðjast með okkur er bent á að hafa samband við formann síns aðildarfélags en
hér er hægt að nálgast auglýsingu um árshátíðina.

Örnámskeið í tengslum við Dag Græðara.


27.07.2010
Þann 3.September verður boðið upp á Örnámskeið sem eingöngu eru ætluð félagsmönnum aðildarfélaga BIG. Hægt er að panta miða í gegnum tölvupósttfangið erna@kopur.is. eða greiða andvirði miðans inn á reikninginn 521200-26-521200. Allar nánari upplýsingar um örnámskeiðið er hægt að nálgast
hér.


Alþjóðleg ráðstefna í Jerúsalem.


27.07.2010
Dagana 19.-22. Október verður haldin ráðstefna úti í Jerúsalem um óhefðbundnar lækningar. Allar nánari upplýsingar
er hægt að nálgast hér.

Rannsókn um notkun óhefðbundinnar heilbrigðisþjónustu


18.04.2010
Í 4. tbl. Læknablaðsins er birt grein eftir félagsfræðingana Björgu Helgadóttur og Rúnar Vilhjálmsson þar sem þau kynntu sér í hvaða mæli Íslendingar notfæra sér heildrænar meðferðir og hverjar skýringar þess eru. Rannsóknin byggir á könnun sem gerð var árið 2006. Í ljós kom að aukning meðal þeirra sem svöruðu var 6% frá árinu 1998 og að konur og tekjuhærra fólk nýtti sér þjónustuna frekar en aðrir. Einnig að líkamleg og sálræn vanlíðan tengist notkun og að þeir sem hafa neikvæða eða jákvæða afstöðu til þjónustu lækna sækja frekar í heildræna meðferð en þeir sem hafa hlutlausa afstöðu. Þeir sem fara oft til læknis nota frekar þjónustu græðara heldur en þeir sem fara sjaldan eða ekki til læknis. Höfundarnir álykta sem svo að við veitum umtalsverða þjónustu og það í vaxandi mæli og að ákveðinn hluti þjóðarinnar virðist ekki ánægður með þá þjónustu sem hann fær í heilbrigðiskerfinu. Ekkert af þessu ætti að koma okkur, sem störfum við heildræna meðferð, á óvart, en gott er að fá staðfestingu á því, svart á hvítu. Réttilega hefur verið bent á það í fjölmiðlum að fróðlegt væri að gera samanburð á þessum tölum frá 2006 og ástandinu eins og það er í dag, þegar fjárhagur bæði almennings og stofnana í hinu opinbera heilbrigðiskerfi er allt annar en var fyrir efnahagskreppuna. Einnig væri fróðlegt að afla upplýsinga um hvaða áhrif skráning græðara hefur haft á val neytenda, en tölurnar í þessari könnun eru frá því áður en frjálsu skráningarkerfi græðara var komið á fót. Græðarar eru eindregið hvattir til að kynna sér rannsóknina í heild sinni á vef Læknablaðsins.Námskeið: Starfstengd siðfræði


18.04.2010

Þann 27. apríl heldur Endurmenntun Háskóla Íslands námskeið um starfstengda siðfræði, m.a. fagmennsku, siðareglur starfsstétta, siðferðileg vandamál, þagnarskyldu og trúnað. Kennari er Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar. Sjá nánar á www.ehi.is.Dagur græðara 2010


17.04.2010

Ákveðið hefur verið að í ár verði dagur græðara haldinn hátíðlegur helgina 3.-5. september. Undirbúningsnefndin hefur þegar unnið töluverða undirbúningsvinnu en dagskráin verður birt á heimasíðu BÍG þegar nær dregur.Fundur


09.11.2009
Pasted Graphic

Fyrir skömmu fundaði NSK, Norðurlandaráð græðara hérlendis. Við það tækifæri var komið á fundi með þeim sem sátu fundinn, fulltrúum frá stjórn BÍG og fulltrúa frá Heilbrigðisráðuneytinu, Gunnari Alexander Ólafssyni. Gunnar lét vel af þeirri reynslu sem verið hefur af frjálsu skráningarkerfi græðara hérlendis, sagði frá því að tekið hefði verið eftir því í ráðuneytinu hve mikil eining ríkir meðal íslenskra græðara og óskaði bandalaginu til hamingju með nýútkomið fylgiblað með Fréttablaðinu í tilefni dags græðara. Meðal annars sem bar á góma var staða græðara á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu og virðisaukaskattsmál. Fundurinn var mjög ánægjulegur og skapaðist þarna gott tækifæri til að miðla í báðar áttir upplýsingum sem snerta málefni græðara.

Lilja Oddsdóttir, formaður BÍG, Gunnar Alexander Ólafsson,
sérfræðingur hjá Heilbrigðisráðuneytinu og Susanne Nordling,
formaður NSK
Ráðstefna: Forvarnir og lífsstíll


08.11.2009

13.-14. nóvember verður haldin í Reykjavík ráðstefna um forvarnir og lífsstíl. Margir þekktustu vísindamenn þjóðarinnar á sviði heilsu, læknisfræði, næringar, íþrótta o.fl. eru í hópi frummælenda. Fjallað verður um offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, heilabilunar-, meltingar- og lungnasjúkdóma, krabbamein, stoðkerfisvandamál, beinvernd, reykingar, streitu, geðheilsu, tannvernd, lyf, efnaumhverfi Íslendinga, ýmsa framleiðslu og þróun hérlendis o.m.fl. Heiðursgestur ráðstefnunnar er Nóbelsverðlaunahafinn dr. Louis Ignarro. Sjá nánar á www.forvarniroglifsstill.is og www.pressan.is/forvarnir.Viðurkenning


04.11.2009

Pasted Graphic
Menntamálaráðuneyti Íslands hefur frá október 2009 samþykkt umsókn Nýja Heilsumeistaraskólans um viðurkenningu á skólanum sem einkaskóla á framhaldsskólastigi, samkvæmt lögum þar að lútandi. Viðurkenningin er veitt til að starfrækja nám í heildrænum meðferðum, heilsumeistaranám, í samræmi við lög um græðara. Í námskrá Heilsumeistaraskólans er námið skilgreint sem 86 eininga nám sem kennt er í 25 áföngum á 3 árum. Nánari upplýsingar um námskrá skólans og fleira er lýtur að kennslu skólans má sjá á heimasíðu hans, www.heilsumeistaraskolinn.com. Í Heilsumeistara–skólanum eru nú 42 nemendur samtals og í júní 2010 mun skólinn útskrifa fyrstu heilsumeistarana.Námskeið um náttúrumeðul - að tileinka sér upplýsingar


03.11.2009

Þann 4. nóvember heldur Endurmenntun Háskóla Íslands námskeið þar sem þátttakendur öðlast aukna hæfni til að tileinka sér ýmsan fróðleik um óhefðbundin meðul úr náttúrunni. Farið verður yfir ýmis hugtök, s.s. frásog, aðgengi, aukaverkanir, frábendingar o.s.frv. Ennfremur útskýrður munur á náttúruvöru, náttúrulyfi, hómópataremedíum o.fl. og farið yfir helstu öryggisatriði. Einnig hvað þarf að hafa í huga við lestur greina og auglýsinga, fróðleikur um markhópa, útbreiðslu notkunar o.fl. Sjá nánar á www.ehi.is.Alþjóðleg ráðstefna um rannsóknir á heildrænni meðferð


06.10.2009

Í Tromsö í Noregi verður haldin fimmta alþjóðlega ráðstefnan um rannsóknir á heildrænum meðferðum dagana 19.-21. maí 2010. Þema ráðstefnunnar er: "Rannsóknir sem nýtast þeim sem hafa þráláta sjúkdóma". Ráðstefnan er haldin árlega af The International Society for Complementary Medicine Research og þetta árið í samvinnu við NAFKAM, sem er rannsóknastofnun við læknadeild háskólans í Tromsö. Sjá nánar á heimasíðu ráðstefnunnar.

Organon 10 ára


Pasted Graphic 1
19.00.2009

Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því Organon, fagfélag hómópata, var stofnað. Af því tilefni fékk félagið heimsfrægan hómópata, Miröndu Castro, til að koma til Íslands og halda námskeið. Námskeiðið sóttu nærri 70 manns og að því loknu var haldin afmælisveisla. Bandalag íslenskra græðara óskar félagsmönnum til hamingju með afmælið.

Miranda Castro og Anna Birna Ragnarsdóttir, formaður Organon, fagfélags hómópata:
Alþjóðleg ráðstefna um Bowentækni


31.08.2009

Fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um Bowentækni verður haldin í Bretlandi 24. og 25. apríl 2010. Aðalræðumenn verða Robert Schleip, Tom Myers, G. Lorimer Mosely og Hans Thijssen. Bowentæknin er runnin undan rifjum hins ástralska Tom Bowen, en dætur hans, Pam Trigg og Heather Edmonds, gera sér ferð alla leiðina frá Ástralíu til að fræða ráðstefnugesti um hugmyndaheim föður síns. Sjá nánar á heimasíðu ráðstefnunnar.Healing the Healers


28.08.2009
Pasted Graphic 1


Alþjóðlega ráðstefnan Healing the Healers verður haldin á Íslandi í fjórða sinn dagana 2.-4. október 2009. Meðal fyrirlesara verða Jaqueline Mast, Anna Katrín Ottesen, Les Moore, Brian D. Dailey, Lilja Petra Ásgeirsdóttir, Daniel Benor, Rick Patterson, Leda Mast, Örn Jónsson og Sara Pierce. Umfjöllunarefnin eru fjölbreytt, en einnig eru verklegar æfingar, skemmtun og slökun. Áherslan er á að græðarar sinni sjálfum sér um leið og þeir læra meira. Sjá nánar á heimasíðu ráðstefnunnar.Vefnámskeið um hómópatíu


27.08.2009

Dagana 30. ágúst til 3. september 2009 verður The Homeopathic European Summer School í fyrsta sinn sendur út á netinu. Sent verður út beint frá Varna í Búlgaríu en þátttakendur geta sparað sér flug og gistingu, setið heima þess í stað og fylgst með fyrirlesurum á borð við Dinesh Chauhan, Ajit Kuklarni, Roma Buchimensky, Manish Bhatia, Dora Pachova, Kineret Da'abul-Virnik og Boris Shoitov. Sjá nánar á heimasíðu skólans.Námstefna um náttúrulyf og náttúruvörur


24.08.2009

Þann 26. nóvember 2009 heldur Endurmenntun Háskóla Íslands námstefnu um náttúrulyf og náttúruvörur í samstarfi við Rannsóknastofnun um lyfjamál, lyfjafræðideild Háskóla Íslands og Lyfjafræðingafélag Íslands. Fjallað verður um lög, reglugerðir, notendur, öryggi notkunar, gæði framleiðslu, jóhannesarjurt, garðabrúðu, passíublóm, burnirót, ginseng, trönuber, sólhatt, grænt te, hoodia gordonii, engifer, coleus forskohlii, phytoestrogen, musteristre, freyspálma, og kínahvönn. Nánari upplýsingar og skráning á heimasíðu Endurmenntunar.Dagur græðara 2009


27.07.2009

Ákveðið hefur verið að halda hátíðlegan Dag græðara í október ár hvert. Dagana 1.-8. október 2009 munu græðarar standa fyrir ýmsum uppákomum víðs vegar um landið og að lokum verður haldin uppskeruhátíð 3. október með fyrirlestrum fyrir almenning og árshátíð fyrir græðara um kvöldið. Dagskrá verður birt á heimasíðu BÍG þegar nær dregur.Norðurlandafundur á Íslandi


25.07. 2009

NSK, Norðurlandaráð græðara, heldur fund hérlendis 2.-3. október 2009. Ráðið fundar að jafnaði tvisvar árlega og skiptast aðildarlöndin fimm á um að hýsa fundina, en einnig hafa þeir verið haldnir annars staðar í Evrópu. Fimm ár eru liðin frá síðasta fundi hérlendis, en nú er röðin aftur komin að okkur. Tveir fulltrúar koma hingað frá hverju hinna aðildarlandanna. Undirbúningur er kominn vel á veg, en það er á höndum BÍG að finna gistingu og fundarstað. Einhverjir hinna erlendu gesta munu nota tækifærið, dvelja lengur og skoða landið.Heilsustefna á Indlandi


25.06. 2009

BÍG hefur borist kynning á stórri indverskri heilsustefnu um ayurveda, jóga, náttúrulækningar, hómópatíu o.fl. Stefnan er haldin 18.-21. september 2009 í Nýju Delí á Indlandi. Nánari upplýsingar fást hjá BÍG eða á heimasíðu Arogya 2009.Norðmenn fella niður virðisaukaskatt


28.02.2009

Þær gleðilegu fregnir hafa borist frá NNH, systurbandalagi BÍG í Noregi, að virðisaukaskattur hafi verið felldur niður af starfsemi skráðra græðara þar í landi frá og með síðustu áramótum. Það er að sjálfsögðu hagur bæði neytenda og veitenda græðaraþjónustunnar að starfsemin sé undanþegin virðisaukaskatti, en einnig ríkisins, þar sem líklegt er að í kjölfarið dragi úr "svartri" atvinnustarfsemi í greininni. Það hefur verið yfirlýst markmið NSK, Norðurlandaráðs græðara, allt frá stofnun að virðisaukaskattur verði felldur niður af heildrænum meðferðum alls staðar á Norðurlöndunum.
Við hjá Bandalagi íslenskra græðara óskum Norðmönnum til hamingju með þessa ákvörðun og vonum að sjálfsögðu að íslenska ríkið taki sér Norðmenn til fyrirmyndar áður en langt um líður. Það er nú enn mikilvægara fyrir almenning en áður að hafa greiðan aðgang að starfsemi græðara, þar sem fyrirsjáanlegur er aukinn niðurskurður og samdráttur í þjónustu hins opinbera heilbrigðiskerfis í kjölfar efnahagskreppunnar.Fyrsti græðarinn fær skráningu


7.5.2007

Fyrsti græðarinn hefur fengið skráningu samkvæmt skráningarkerfi Bandalags íslenskra græðara sem viðurkennt er af heilbrigðisyfirvöldum. Handhafi fyrsta skráningaskírteinisins er Anna Birna Ragnarsdóttir, hómópati og formaður Bandalags íslenskra græðara og Organon, fagfélags hómópata. Í tilefni af skráningu fyrsta græðarans heimsótti hópur græðara Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, í ráðuneytið.

Lög um græðara voru sett af Alþingi árið 2005 en markmið þeirra er að stuðla að gæðum í þjónustu græðara og tryggja öryggi þeirra sem nýta sér hana. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafði áður hvatt aðildarþjóðir sínar til að setja reglur um þessa starfsemi. Í lögunum eru störf græðara skilgreind sem heilsutengd þjónusta sem byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum og sem veitt eru utan almennu heilbrigðisþjónustunnar. Þjónusta græðara felur í sér meðferð sem hefur að markmiði að efla heilsu fólks, lina þjáningar og draga úr óþægindum.

Til að fá skráningu þarf græðari að vera í fagfélagi sem er viðurkennt sem aðili að frjálsu skráningarkerfi Bandalags íslenskra græðara. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákveður að fenginni umsögn Landlæknis og Bandalags íslenskra græðara hvort einstök félög uppfylla kröfur sem eru forsenda þess að fá aðild að skráningarkerfinu.  Til þessa hafa fimm fagfélög græðara fengið aðild að skráningarkerfinu og umsóknir tveggja félaga til viðbótar eru til skoðunar. Innan þessara félaga eru starfandi liðlega 500 græðarar og má búast við að á næstunni muni fjöldi þeirra óska eftir formlegri skráningu. Græðarar sem sækja um skráningu þurfa meðal annars að hafa ábyrgðartryggingu sem tryggir skjólstæðinga þeirra vegna tjóns sem kann að hljótast af gáleysi í störfum þeirra.

Fyrsta félagið sem fékk samþykkta aðild að skráningarkerfinu var Organon, félag hómópata, en síðan hafa fjögur önnur fagfélög bæst við en það eru: CranioSacral félag Íslands, Shiatsufélag Íslands, Svæðameðferðafélag Íslands og Félag íslenskra heilsunuddara.
Græðararnir
Græðararnir sem heimsóttu ráðherra í tilefni skráningu fyrsta græðarans:
Frá vinstri, Árni V. Pálmason, CranioSacral félagi Íslands, Anna Birna Ragnarsdóttir, Organon, fagfélagi hómópata, Ásta Agnarsdóttir, Sambandi svæða-og viðbragðsfræðinga á Íslandi, Siv Friðleifsdóttir, Guðrún Jónína, Félagi íslenskra heilsunuddara, og Ragnheiður Júlíusdóttir, Svæðameðferðafélagi Íslands.